Eftir að hafa fylgst með fregnum af landsfundum tveggja stjórnmálaflokka í tvo daga og hlustað á ræður tveggja fyrrverandi formanna þeirra, ræður sem stóðu langt niður úr öðru tali, og fjölmiðlar sögðu frá, urðum við hjónakornin sammála um að ganga í guðshús í morgun og hlusta á guðsorð til að sefa undrun okkar og vonbrigði.
Við mættum í Dómkirkjuna í Reykjavík klukkan ellefu. Dr. Einar Sigurbjörnsson messaði. Það var ljúft að sitja í messunni. Í upphafi var kornabarn borið fram og gefið nafnið Friðrik Ólafur. Var beðið fyrir honum og Drottinn beðinn um að vernda hann og blessa um ævina. Það var falleg athöfn. Aldrei hef ég skilið af hverju lúterska kirkjan tengir þessa athöfn við skírn. En það er önnur saga.
Dr. Einar flutti góða prédikun út frá orðunum um boðunardag Maríu, sem hann nefndi ,,blómstur allra hátíða“ og tengdi við bæn Hönnu, konu Elkana, í 1. Samúelsbók 2. Báðar fengu þessar konur mikilvæg hlutverk af Guði föður í himninum. Hanna varð móðir Samúels hins mikla spámanns og María varð móðir Jesú. Báðar eru þær miklir stólpar í hugum trúaðra og frásagnir af þeim elskaðar af unnendum ritninganna.
Að messu lokinni var boðið til samveru í safnaðarheimili Dómkirkjunnar þar sem veitingar voru á boðstólum ásamt því að dr. Kristinn Ólason flutti erindi um myndmál kirkjunnar. Það var gott að hlýða á Kristin og góður rómur gerður að máli hans. Sr. Anna Pálsdóttir stóð fyrir samverustundinni.
Klukkan eitt ók Ásta okkur, eins og ljón, inn Sæbraut þar sem við höfðum ákveðið að vera við messu í Skjóli, vistheimili aldraðra. Séra Sigurður Jónsson frá Haukagili, nú prestur í Áskirkju, messaði. Við sátum með gamla fólkinu og hlýddum á sr. Sigurð leggja út af boðskap dagsins. Aðlaðandi og ljúfur beindi hann orðum sínum til gamla fólksins. Í lokin tók hann í hönd allra viðstaddra og þakkaði því innilega fyrir samveruna.
Sr. Sigurður heilsaði okkur Ástu og nefndi ég við hann að ég hefði þekkt pabba hans fyrir fimmtíu árum í Hvítársíðu. Og í framhaldi féllu nokkur orð sem yljuðu og vermdu. Íbúi Skjóls, Ingibjörg frá Hlöðutúni föðursystir Ástu, sem við ætluðum að vera með í messunni, var ekki heima. Hafði eitthvert barnabarna hennar sótt hana fyrir hádegi og tekið með sér heim.
Hvað um það. Í morgun horfði hugur okkar upp og yfir ryk pólitískrar síbylju sem dynur á fólki dag eftir dag þessar vikurnar og myrkvar tilveruna fremur en að lýsa hana. Eykur svartsýni í stað þess að auka bjartsýni. Og orð meistarans frá Nasaret endurnýjast á hverjum degi Drottins: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Það er fyrirheit sem gott er að eiga hlutdeild í.