Fórum í sveitina okkar á föstudag. Út í vorið, eins og sönghópurinn kallar sig. Á móti okkur tók blessuð blíða. Þannig orðar eldra fólk það. Logn, úrkomulaust, hiti + 10°C. Við fögnuðum og önduðum djúpt. Laugardagurinn enn ljúflegri. Framan af. Unun.
Síðdegis á laugardag snérist vindáttin í SSV. Þá tók að snjóa. Snjóaði alla nóttina. Bætti í vind og snjóaði meira. Í morgun var krap á vegum. Það var þeirrar tegundar sem reynir að taka af manni stýrið og lætur bílinn rása. Nutum sextíu ára reynslu af akstri við íslensk skilyrði. Andstreymi.

Stönsuðum undir Hafnarfjalli. Sérkennileg munstur í fjallinu. Tókum mynd. Horfðum í gegnum linsuna yfir fjörðinn til Borgarness. Langþreytt, vindbarin, hrísla í forgrunn. Fegurð er margra gerða. Það var lítil umferð. Töldum hringtorgin sem ekið er um frá Leirvogstungumelum og heim í Kópavog.. Þau reynast vera sautján. Andstreymi.

Sáum í Mogganum, sötrandi heitt kaffi, að báðir kvenpennarnir, Agnes og Kolbrún, eru pirraðar út í Jóhönnu Sigurðardóttur krata. Kannski er það persónulegt. Kannski ritstjórnarstefna. Ég dreg þá ályktun að Mogganum sýnist Jóhanna óþarflega vinsæl í pólitíkinni. Nauðsynlegt sé að sussa pínulítið á traustið sem hún nýtur. Mogginn.

Sjálfur er ég að mestu sáttur við Jóhönnu. Það er auðvitað fullt af smábátum í liði hennar. Litlum duggum sem hnýttar eru aftaní hana. Varla þó fleiri en í öðrum flokkum. Mér er alltaf hlýtt til Alþýðuflokksnafnsins. Síðan fyrir miðja síðustu öld. Og Viðreisnarstjórnarinnar. Hafði alltaf svolitla andúð á Kvennalistann og tókst aldrei að skilja Jón Baldvin. Efast um að hann geri það sjálfur.
Og nú er bannað að lesa úr bókum Hannesar Hólmssteins á Háskólatorgi. Þetta eru skrítnir tímar. Steingrímur J. stóð sig þokkalega í Silfrinu. Þá stendur Ragnar Aðalsteinsson alltaf öðruvísi að veröld lögfræðinnar en almennt tíðkast. hann virkar á mig eins og klettur í löðrinu.
Færeyingar sigruðu Íslendinga í fótbolta Kórahöllinni 2-1. Ravuliga gott.