Það hefur verið fremur kuldalegt að mæta í bugtinni við Ægisgarð síðustu daga. Norðaustan vindur feykti snjónum eftir malbikinu og safnaði honum við gangstéttarbrúnirnar. Lítill skafl hefur myndast undir bekknum sem félagarnir gjarnan setjast á þegar þeir hittast og ræða málin.
Nú voru þeir mættir eftir nokkurt hlé. Helgi var í öllum sínum kuldaflíkum, þykkum síðum frakka með breiðan ullartrefil tvívafinn um hálsinn, húfuna niður í augum og hendur djúpt í vösum. Það var léttara yfir Hannesi, enda komin sunnan átt og hitinn yfir frostmark.
Hannes: Eitthvað að frétta?
Helgi: Afmæli í gær.
Hannes: Afmæli? Hver átti afmæli?
Helgi: Þórður.
Hannes: Þórður?
Helgi: Hennar Stínu með stóru brjóstin.
Hannes: Þau voru nú alltaf flott maður.
Helgi: Og eru enn.
Hannes: Var þetta gott afmæli?
Helgi: Nóg var af tertunum.
Hannes: Hnallþórur?
Helgi: Heldur betur.
Hannes: Margt fólk?
Helgi: Setið í öllum sætum.
Hannes: Mikið spjallað?
Helgi: Nóg af því.
Hannes: Eitthvað merkilegt?
Helgi: Það vildu allir tala um tuttugu prósentin.
Hannes: Tuttugu prósentin?
Helgi: Þessi flötu, í hausunum á Tryggva og Sigmundi.
Hannes: Og hvað?
Helgi: Það lá við slagsmálum um tíma.
Hannes: Hvað segirðu?
Helgi: Já. Frikki fatalausi ætlaði að berja í Sigga í Stóra húsinu.
Hannes: Berja Sigga? Af hverju?
Helgi tók sér málhvíld. Hann horfði út yfir höfnina. Sjófuglinn renndi sér niður að haffletinum í löngum sveig og upp aftur. Það rétt sá í augu og nef Helga á milli trefils og húfu. Loks ýtti hann treflinum niður fyrir munninn.
Hannes: Vertu ekki að draga mig á þessu. Segðu frá.
Helgi: Það var út af þessum tuttugu prósentum.
Hannes: Nú?
Helgi: Já, já. Siggi í Stóra húsinu skuldar sjötíu milljónir, en Frikki
fatalausi sjö og hálfa.
Hannes: Nú já?
Helgi: Siggi í Stóra húsinu fengi fjórtán milljónir í niðurfellingu,
Frikki fatalausi bara eina og hálfa.
Hannes: Og hvað?
Helgi: Þá byrjaði Frikki fatalausi að titra.
Hannes: Yfir hverju?
Helgi: Þegar hann spurði hverjir ættu svo að borga ríkinu fyrir
niðurfellinguna, glotti Siggi í Stóra húsinu og sagði að ríkið
næði því með sköttum auðvitað.
Hannes: Er það ekki eðlilegt?
Helgi: Ég veit það ekki. Siggi í Stóra húsinu borgar bara tíu
prósent í skatt af því að hann er með rekstur, en Frikki
fatalausi þrjátíu og sjö af því að hann er ekki með rekstur.
Og þegar þetta var komið fram fór Siggi í Stóra húsinu að
skelli hlægja og þá trylltist Frikki fatalausi, bókstaflega
trylltist og ætlaði að stökkva á hann.
Hannes: Varð hann svona reiður?
Helgi: Alveg snar.
Hannes: Hvað gerðist svo?
Helgi: Stína með stóru brjóstin tók utan um hann og þrýsti honum
að brjóstunum á sér. Siggi í Stóra húsinu tók hattinn sinn og
sagði um leið og hann kvaddi: „Það er ekki sama í hvaða liði
maður er, ágæta fólk. Munið það í kosningunum í vor.“
Hvernig stendur á að mér var ekki boðið í þessa afmælisveislu?
Einu sinni í gamla daga var O listi. Það var mikið spaug. Ætli það nægi ekki þeim bókstaf.
Frikki ætti að fara í framboð sjálfur og þá fyrir L eða O lista
Ágæti Glúmur. Þú hefur áhyggjur af atkvæði Frikka fatalausa en engar sjáanlegar af Sigga í Stóra húsinu. Vafalítið treystir þú á að Siggi í Stóra húsinu sé framsóknarmaður eins og þú og stærstu eigendur Hb Granda.
Þeir eru góðir pistlarnir hjá þér Óli. Helgi og Hannes eru skemmtilegir karektar hjá þér. takk fyrir það kveðja.
Varla kýs Frikki Baugsflokkinn.