Það er auðvitað réttlætismál að þeir sem hafa betri kjör um þessar mundir leggi meira af mörkum í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar til að standa undir þeim gjöldum sem steypast yfir þessi misserin. Í gegnum tíðina var þetta þannig og talað um breiðu bökin. Dugnaðarþjarka og hörkutól.
Eldri borgarar sem nú standa á hliðarlínunni hafa margoft á ævinni verið flokkaðir sem fólkið með breiðu bökin og þurft að taka á sig þyngri byrðar í sköttum og gjöldum yfir erfið tímabil. Það var talið réttlætismál í þau skipti.
Svo komu þessi ár þar sem þessum fyrrverandi breiðu bökum var skammtað svo naumt að margir hverjir þeirra áttu í erfiðleikum með að komast af. Á sama tíma var hlaðið undir þá sem betri kjör höfðu og mest undir þá sem bestu kjörin höfðu. Það var ekki réttlæti í þeirri stefnu ríkisstjórnar.
Vonandi tekst því fólki sem nú er við stjórnvölin að haga málum svo að einskonar réttlæti nái fram við ákvarðanir. Það verða margir sem horfa til þess.