Í gamla daga var þetta þannig að dagblöðin voru að minnsta kosti fimm, þ.e. Morgunblaðið, Tíminn, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Vísir. Fjögur þeirra voru blöð stjórnmálaskoðana og flokka. Þetta var ekki svo slæmt. Maður las þau öll og viðaði úr þeim kjarnann í pólitíkinni og reyndi að mynda sér skoðanir eftir mætti.
Nú halda blöð því að manni að þau séu frjáls og óháð. Því fer þó víðs fjarri. Þau eru kannski ekki bundin stjórnmálaflokkum eða skoðunum beint, en þau eru bundin samt. Varla verður Mogginn óháður. Fjárfestarnir sem keyptu hann eru flestir gallharðir sjálfstæðismenn og hinir væntanlega framsóknarmenn. Þannig var bandalagið undanfarin ár. Fréttablaðið hef ég aldrei skilið. Það er þó einnig gefið út af fjárfestum og ber hag þeirra fyrir brjósti. Önnur dagblöð gefin út á pappír les ég ekki.
Blöðunum á netinu fjölgar. Nýjast í þeirri flóru er Pressan. Ritstjórar hennar auglýsa að þeir séu frjálsir og óháðir. Þó blasir við að það eru fjárfestar með orðstír sem að henni standa. Það er ekki efnilegt þegar blað hefur göngu sína með falskri yfirlýsingu. Hvers má vænta af slíku blaði. Loks eru á netinu Eyjan, Smugan, Amx, Vísir og Viðskiptablaðið. Smugan reynir síst að þykjast vera annað en hún er.
Það liggur við að maður sakni gömlu prentuðu dagblaðanna sem komu í bréfalúguna og töluðu tæpitungulaust um stjórnmálaskoðanir eigenda sinna. Þóttust ekki vera neitt annað en þau voru. Það er harla góður kostur. En nú er öldin önnur.
Sæll Egill Helgason. Ég verð að játa að ég var ekki með þig í huga í sambandi við Eyjuna. Þar koma fleiri að, eða hvað? Játa einnig að ég er aðdáandi þinn í allri umfjöllun þinni um hamfarirnar í fjármálum þjóðarinnar. Sendi þér einlægar baráttukveðjur.
Sæll, ég nefni það við þig með Eyjuna að ég hef ekki hugmynd um hvar eigendur hennar standa í pólitík, enda er voða erfitt að sjá einhverja ákveðna pólitíska línu þar. Ég hef lengi starfað í fjölmiðlum og Eyjan er einna frjálsasti fjölmiðillinn sem ég hef kynnst.
Og sjálfur er ég býsna frjáls.
mbk Egill