Ferðir okkar Ástu í bíó eru ekki tíðar. Gjarnan líða eitt til tvö ár á milli bíóferða. Síðast fórum við og sáum Brúðgumann í febrúar 2008. Það var fyrir Kreppu. Í gær sóttum við í okkur veðrið og ókum vestur í Háskólabíó til að sjá The Reader, en við lásum bókina Lesarinn, Der Vorleser, eftir Bernhard Schlink, í frábærri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar í febrúar 2005 og urðum bæði mjög hrifin af henni. Sjá hér.
Kvikmyndin, The Reader, er í einu orði sagt stórkostleg kvikmynd. Frá fyrstu mínútu til enda. Hún rígheldur áhorfandanum allan tímann í mjúksárri tilfinningu. Og sárri. Myndatakan, hver senan eftir aðra talar sterku máli og leikurinn er afburða og ógleymanlegur.
Það má segja að allir leikarar í myndinni skili sínu hlutverki með miklum ágætum, þótt þrjú séu í aðalhlutverkunum. Samspil Hönnu Schmitz ( Kate Winslet, hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni) og Michael´s Berg ungum ( David Cross) er sérlega vel leikið og trúverðugt og einskonar undirstaða undir söguna. Michael Berg fullvaxinn er leikinn af Ralph Finnes. Uppgjör hans við fortíðina og æskuástina og glíman við uppgjörið fylgja honum allt lífið.
„Hvað hefðir þú gert?“ gagnspurði Hanna dómarann, þegar hann gekk hvað harðast að henni í réttarsalnum. Það var magnþrungið augnablik. Myndin er stórkostleg og hvet ég fólk til að sjá hana og mynda sér sjálft skoðun á kvikmyndinni og sögunni.