Það var ekki komið í tísku að syngja út sælgæti þegar ég var drengur. Þá kepptumst ungmenni eingöngu við að hengja poka aftan á náaungann. Það var oft talsvert spennandi. Síðar komst sá siður á að fara um í flokkum og syngja í verslunum og fyrirtækjum og fá sælgæti í verðlaun.
Um hádegisbil í dag þurfti ég að koma við í verslun hérna neðar í brekkunni. Mig vantaði smáræði til að kóróna indverska réttinn sem góður vinur ætlar að borða með okkur Ástu í kvöld. Við kassann í búðinni var ungmenni að syngja fyrir verslunarstjórann. Ég tók undir með söngvaranum. Stjórinn gaf mér lítinn plastpoka sem heitir Öskupoki og er með nammi í. Ég varð hálf asnalegur þegar ég tók við pokanum.
Annars er öskudagur upphafsdagur sjöviknaföstu. Þá tekur unnandi ritninganna stóru Biblíuna ofan úr hillu og hefur hana á skrifborðinu og les í henni daglega. Guðspjall Jóhannesar. Það inniheldur dásamlega texta og sögu mikils meistara. Manninn frá Nasaret sem gekk um og leiðbeindi fólki til verðmætari gilda. Það er góður félagsskapur.
Gat verið að gamli vildi smá nammi heha ha
Góður með öskupokann!!!