Daginn hefur lengt. Birtan á milli élja dregur hugann út úr þéttbýlinu á vit þess héraðs sem sterkust á ítök í hjartahólfinu. Þar sem lífið og tilveran lék á strengina eins og fiðlubogi á selló. Í minningunni fegurri en fyrrum. Lúta lögmáli um fjarlægð og bláan lit fjalla.
Við stefnum í Borgarfjörð. Frúin á geymdan frídag. Tekur hann út af reikningi og bætir við helgina. Tökum með okkur kistu með góðgæti í, ýmsum brauðum og eplatertu, heimabökuðum, bita úr lambi og vöðva af fugli. Heyrum snarka á pönnu.
Það örlar á vægum skjálfta tilhlökkunar. Inni í höfðinu. Þar hljóma laglínur frá ýmsum hornum veraldar og skeiðum ævinnar. Barnssálin reisir sig, setur í samhengi gamalkunnugt lag: Borgarfjörður here I come, í stað San Fransiskó.
Í hugann koma orð meistarans Lao Tze um rykið: „Góður göngumaður þyrlar ekki upp ryki.“ Í þéttbýlinu þyrla margir upp ryki. Erfitt er að greina gönguleiðir og hvert þær liggja. Þá er vissulega gott að hverfa til tærleika fjallaloftsins, krækja saman fingrum í kvöldrökkri, finna ylinn hvort af öðru, hlusta á dimma rödd Cohens og stíga tangó spor: ,,Dance me to the end of love.“