Á þessum óvenjulegu tímum í stjórnmálum, þegar margir stjórnmálamenn hafa misst sinn fasta langtíma valdasess í ríkisstjórn og aðrir sem þráð hafa þau sömu völd um langt árabil, af sjóðheitri ástríðu, komist til valda, fer ekki hjá því að kjósendur verði vitni að mikilli geðshræringu hjá báðum hópunum.
Geðshræringar þessar hafa í mörgum tilvikum farið svo með þolendur að þeir hafa misst sig bæði í framkomu og tali. Hefur áhorfendum þá gjarnan sýnst glytta í innri mann sem lengst af var falinn á bakvið framhliðina sem viðkomandi bar á torg. Þessar vangaveltur komu í hugann við lestur ritgerða, útgefnum af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, undir heitinu Siðfræði og stjórnmál. Ritstjóri Jón Ásgeir Kalmansson.
Í inngangi bókarinnar, sem Páll Skúlason heimspekingur skrifar og hefur þá haft nokkur orð um ritgerðirnar segir m.a.:
„Margvíslegan lærdóm má draga af þessum erindum, bæði hverju fyrir sig og eins með því að tengja þau saman innbyrðis – og þá einnig með því að líta á þau sem eina heild. […] Öll benda þau á sömu ágalla og hættur við þá siði – eða réttara sagt ósiði – sem ríkt hafa í stjórnmálunum og einkennast af sérhagsmunagæslu, misbeitingu valds og skorti á siðgæðisvitund og skýrum reglum, bæði skráðum og óskráðum. Og öll boða erindin okkur nýja tíma – hvert með sínum hætti.“ Bls. 14.
Bókin var gefin út 1995.