Í litlu þægilegu matarboði í fjölskyldunni í gærkvöldi, þar sem setið var yfir góðum mat og vinarþeli, bar margt á góma eins og gengur. Ræddar voru jólagjafir, bækur og hlutir. Allir lögðu til málanna.
Rökkurtal og launkofar
Fremur lítil birta hefur tekið á móti fólki við fótaferð síðustu daga. Á það bæði við um dagsbirtuna í umhverfinu sem og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þá hefur málflutningur ráðamanna ekki einkennst af birtu, má sannast sagna kalla orðræður þeirra rökkurtal.
Ópið, á þriðja degi
Þegar líða tók á gærdaginn og lítið rofaði til í hausnum á mér sagði Ásta: „Þú ættir að mæla þig.“ Mér þótti það ekki svaravert. Svartsýnin var kökkþykk. Ákvað að fara út. Anda að mér rakri áramótasúldinni. „Tak hnakk þinn og hest,“ sagði Benediktsson. „Tak sæng þína og gakk,“ sagði Jósefsson. „Tak bíl þinn og ak,“ sagði Ágústsson.
Ópið, á öðrum degi ársins
Það var fremur hlutlaust að vakna í gærmorgun. Þá var fyrsti dagur ársins. Í morgun var það verra. Eiginlega vont. Ástand þjóðmálanna yfirtók hugarfarið um leið og augun opnuðust. Kemstu af eða kemstu ekki af? Niðursveiflan í geðinu hófst. Niður, niður, niður. Ekki bættu áramótaræðurnar ástandið.
Bestu óskir og góða ferð
Nú hefst ferð inn í nýtt ár. Sumum er það vafalítið kvíðvænlegt. Því miður. Ferðina verður samt að fara hvort sem fólk er ferðbúið eða ekki. Þannig er lífið. Ég sendi þeim lakast búnu hvatningarkveðjur og bið þess að andinn sem yfir öllu svífur styðji og hughreysti.