Gærkvöldið var óvenju gott hérna á sjöundu. Nýi Guðjón opnaði kvöldið með frábæru atriði í bankanum. Hnyttinn og beittur. Innheimtuseðillinn var stílaður á Gamla Guðjón. Nýja Guðjóni kom skuldin ekkert við. Hann hafði lært tæknina af útrásarbófunum. „Ég get reynt,“ sagði bankafulltrúinn þegar Nýi Guðjón sagði henni að troða innheimtuseðlinum upp í óæðri endann á sér.
Eftir Spaugstofu settum við mynddisk með Álftagerðisbræðrum í spilara. Okkur hafði verið lánaður diskurinn. Og það verður að segjast alveg nákvæmlega eins og það er, það var dásamlegt að sjá bræðurna, frjálsa og elagant venjulega menn fara á kostum í söng ,viðtölum, á æfingum og tónleikum í tilefni tvítugs afmælis þeirra.

Söngurinn og framkoman feyktu í burtu öllu þessu fúla andrúmslofti sem liggur yfir þjóðinni. Hnyttnir í orðum, fyndnir og græskulausir, hittu þeir í mark með mörgum innskotum á tónleikunum og þegar Gunna í Gröf komst í textann um Tondeleyjó þá sprakk salurinn og við tvö hér á sjöundu skellihlógum með. Kvöldið mótaðist af glaðværð bræðranna.
Það er ekki hægt annað en þakka innilega fyrir þessa ágætu skemmtun.