Það var fremur hlutlaust að vakna í gærmorgun. Þá var fyrsti dagur ársins. Í morgun var það verra. Eiginlega vont. Ástand þjóðmálanna yfirtók hugarfarið um leið og augun opnuðust. Kemstu af eða kemstu ekki af? Niðursveiflan í geðinu hófst. Niður, niður, niður. Ekki bættu áramótaræðurnar ástandið.
Stundum gerist svona niðursveifla einhvern veginn án þess að maður sé þátttakandi sjálfur. Hún bara kemur. Hvaðan? Það hefur maður ekki hugmynd um. Og ýtir sálinni niður. Svo fer hjólið af stað. Allir verstu möguleikarnir byrja að snúast inni í hausnum á manni.
Það er líkast því að Ópið, Edvards Munch, fylli hausinn á manni. Og hljóðin. Þau eru þar líka. Þú svo sem sérð þau þegar þú horfir á málverkið hans og skynjar þau í sálinni. Þinni eigin sál. Það var svo við morgunmatinn hjá okkur Ástu sem keyrði um þverbak.
Að venju smurði ég gróft brauð og skammtaði AB mjólk. Hellti djús í glas. Ásta tók til vítamíntöflur. Þetta gerist svo til alla daga ársins. Sjálfur fæ ég mér þorskalýsi. Eina skeið. Svo í morgun, þá hellti ég lýsinu í ostaskerann, setti lýsisflöskuna í uppþvottavélina og ostaskerann í ísskápinn.
Ekki líst mér á það.