Skötudagur í nafni heilags Þorláks fer í hönd. Fimmtán manns borða skötu með okkur Ástu í dag. Það hefur verið siður undanfarin ár. Einn þátttakenda krafðist þess að ég prófaði tindabikkju sem hann verkaði sjálfur. Ég var mjög tregur til þess en komst ekki undan. Þáði nokkur börð. Svo bakaði ég rúgbrauð í gær til að hafa með skötunni.
Uppskriftin er einföld; kæst skata, soðnar kartöflur, hamsatólg, rúgbrauð, smjör. En ekki borða allir skötu. Fáeinir kjósa saltfisk. Það verður látið eftir. Tilhlökkun ríkir. Fólk nýtur þess að koma saman, hittast og borða. Hamsa og kjamsa. Ilmandi dagur fer í hönd.