Eftir kaffið og Moggann í morgun sögðu bækur í einni hillunni í bókaherberginu að það færi ekki nógu vel um þær. -Elskurnar mínar, svaraði ég, -hvað er það sem angrar ykkur? –Æ, okkur ljóðabækurnar langar að vera meira saman. Þú hefur dreift okkur of mikið og stungið ýmsum á milli og aðskilið sumar okkar sem eru vinir. -Eruð þið snobbaðar, spurði ég?
-Nei, svaraði sú sem talaði fyrir þær, -en sumar okkar hafa verið hér í meira en fimmtíu ár og bundist vináttuböndum. Ertu ekki til í að láta það eftir okkur að við fáum að vera saman? Nú horfði ég á hillurnar og las á kilina og sá þarna ýmsar sem í gegnum lífið hafa glatt mig og lyft mér og huggað. Já, huggað. -Það er nú víst það minnsta sem ég geri fyrir ykkur elskurnar mínar, sagði ég.
En það er ekki endilega einfalt að flytja bækur á milli hillna. Í gegnum árin hef ég svo oft skipt skapi og persónuleika, en eins og haft er eftir mörgum rithöfundum og þekkingarmönnum um sálir, þá er enginn maður bara ein sál, og Rousseau kallaði það „vikusálirnar sínar, sem skiptust á mjög reglulega.“
Það var dálítið hikandi sem ég færði firnagóða höfunda neðar um eina hillu til að geta flutt ljóðskáldin saman. En til þess að flytja þá firnagóðu niður um eina varð ég fyrst að leita uppi miðlunga og færa þá til. Stundum roðnaði ég af blygðun. Það er nú ekki hægt að færa hvern sem er niður. Uss nei. Sko ekki.
Eftir tilfærslur og atlot og strokur, ástarjátningar og samræður við bækur og höfunda lét ég staðar numið að sinni. Þetta tók um tvo tíma.Veit ekki hvort bækurnar eru alveg sáttar. Sjálfur hef ég einskonar samviskubit í nokkrum tilfellum. Læt þetta samt vera svona til morguns. Hver veit hvaða sál eða lunderni ríkir þann daginn.