Hvort ætli sé sárara, fyrir efnamann að missa þriðja bílinn sinn eða einstæða móður að eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum? Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að ríkisstjórnin hafi meiri samúð með efnamanninum og vilji fremur hjálpa honum til að halda öllum bílunum en að aðstoða móðurina við framfærslu barnanna.
Hvað skyldi angist nísta marga Íslendinga þessar vikurnar? Má ekki áætla að í kringum 10.000 manns sem misst hafa atvinnu, líði allt að 50.000 fyrir það. Þá eru þær háar tölurnar sem hjálparstofnanir gefa upp um fjölda þeirra sem sækja mat og aðrar nauðsynjar til þeirra. Og hvað ætli margir einstaklingar séu á bak við hvern þann sem kemur skjálfandi og biður um mat?
Það er ekkert leyndarmál hverjir það voru sem stjórnuðu landinu árin sem ósóminn gróf um sig. Ósóminn sem hefur eitrað þjóðlífið og lamað stóran hluta þjóðarinnar. Nei, ég held að það sé ekkert leyndarmál. En það ótrúlega og óskiljanlega er að sama fólkið skuli ennþá stjórna landinu og telja sig vera best til þess fallið.
Það er eitthvað klikkað við þetta kerfi. Eitthvað geðveikt. Eitthvað sem minnir á Mugabe. Svei mér þá. Ég held að það væri gott að kjósa sem fyrst. Ástandið getur varla versnað.