Þar sem ég var að hreinsa snjó af bílnum mínum skömmu fyrir hádegi, það var heilmikill snjór og tók drjúga stund, kom kona nokkur gangandi heim að blokkinni. Hún var hávaxin, grönn, klædd til göngu í rauðum stakk. Þegar hún kom að bílnum sem stóð við gangstéttina, snéri ég mér að henni og sagði: „Það er jólalegt.“ Hún leit til mín, tók Ipod frá eyranu svo að ég endurtók: „Það er jólalegt.“
Andlit hennar ljómaði og hún spurði brosandi:
„Ætli það verði svona um jólin?“
„Fræðingarnir telja líkur á því,“ bætti ég við. Konan staldraði við hjá mér, grannvaxin, ljóshærð og brosmild og tók að segja frá:
„Ég fylgist með hröfnunum hérna í móunum. Við gefum þeim stundum. Það er sagt að hrafninn launi fyrir sig.“
„Svo er sagt,“ tók ég undir við hana og hætti að sópa snjó af bílnum og skoðaði útgeislandi andlit konunnar. Hún hélt áfram:
„Við eigum nokkur hross fyrir austan fjall. Við höfum gefið hröfnunum þar. Svo í sumar var ein hryssan að kasta og ég fylgdist með henni í kíki. Þá sá ég hrafn standa tortryggilega nærri folaldinu og fékk áhyggjur af því að hann færi í augun á því. Fylgjan hafði vafist utan um hausinn og fyrir nasirnar svo það gat ekki andað. En hrafninn kroppaði ítrekað í fylgjuna og við það losnaði hún frá nösum folaldsins svo að það gat andað.“
„Þú meinar að hann hafi verið að launa fyrir sig,“ sagði ég.
Nú ljómaði konan enn meir og hún bætti við:
„Já. Og folaldið heitir Hrafntinnur.“
„Frábær saga,“ sagði ég ,,auðvitað heitir hann Hrafntinnur,“ smitaður af lífsgleði konunnar og horfði á eftir henni halda leiðar sinnar í snjónum.
Mikið er gott fyrir hjartað að hitta svona fólk.