Var að lesa í Mogganum um laun forstjóra lífeyrissjóðanna. Árslaun allt að krónum
– tuttuguogníumilljónirogáttahundruðþúsund -. Kr. 29.800.000.-.
Ég las þetta tvisvar, svo þrisvar og enn einu sinni. Og hugsaði sem svo: Hvað ætli gerist inni í hausnum á þessum mönnum sem fær þá til að taka slík laun? Hvernig hugmyndir hafa þeir um sjálfa sig, hvaða hugmyndir um þarfir sínar og fjölskyldna sinna? Og allir eru peningarnir teknir af sparnaði launamanna, verkafólks, karla og kvenna.
Og hvað ætli gerist inni í hausnum á svona mönnum þegar bröltið í þeim rýrir eignir lífeyrissjóðanna um 202 milljarða í einum mánuði, eignir skjólstæðinga þeirra? Hvaða hugmyndir ætli þeir hafi um sjálfa sig þegar slíkir tímar ganga í garð? Mikil hlýtur aðdáun þeirra að vera á sjálfum sér, sjálfsánægja og tiltrú.
Mér varð líka hugsað til útigangsmannsins sem stal vínarbrauði í verslun á Laugaveginum og var mánuði síðar dæmdur í fangelsi fyrir glæpinn. Hvað ætli hafi gerst inni í hausnum á honum, vesalingnum, þegar hann glorsoltinn, allslaus og illa til fara, ákvað að stela vínabrauðinu til að seðja sárasta hungrið?
Þetta er ekkert annað en svívirða. Svo stinga þeir hinum svanga og allslausa í steininn fyrir smámuni.