Ég var nú bara átta ára þegar þessi umsókn var send til skömmtunarskrifstofunnar. Ég upplifði líka að vera sendur niður í Gúttó til að sækja skömmtunarmiða fyrir helstu nauðsynjum heimilis foreldra minna. Eins og aðrir íbúar landsins. Þá fannst ríkisstjórninni, eins og núna, að hún ein hefði vit á því hvernig fólk ætti að lifa.
Nú fara menn að hressast
Nú fara menn að hressast. Dalurinn kominn í 120. kr. Þá fær maður von um að geta bráðlega aftur keypt bækur á Amazon. Ég hætti þegar dalurinn fór í 90 krónur. Það verður ánægjulegt að vita af möguleikanum þótt lítið sé um skotsilfur. Svo er í öllu falli hægt að velta því fyrir sér, á netinu, hvaða bækur gaman væri að eignast.
Orð, efni og unaður
Nú hvolfist flóðið yfir þjóðina. Stórir brimskaflar. Bækur. Orð. Hugsanir. Milljónir orða. Ofan í brimskafla krepputalsins. Það er mikil ágjöf um þessar mundir. Samt að verða komið nóg af krepputali. Meiri hluti þess froða. Tölum því um bækur. Næstu vikur að minnsta kosti.