Það er einskonar hátíðisdagur hjá mér í dag. Frú Ásta er að setja jólin upp í fimmtugasta sinn í lífi okkar. Henni hefur alltaf tekist að fá hýbýlin til að ljóma um jól. Hvar sem við vorum stödd í tilverunni. Snauð eða minna snauð. Við vorum aldrei rík. Erum ekki rík. Hún tapaði einhverjum krónum í matador víkinganna. Ég átti engar.
Ég upplifi alltaf þægilega gleðitilfinningu þegar Ásta byrjar að taka jólaskrautið upp úr kössum frá árinu áður og skreytir heimilið. Það voru alltaf og eru forréttindi að fá að fylgjast með og taka þátt. Og skima eftir barninu inni í sjálfum sér. Það er vitað að það er þar. Barnið. Vandi manna felst í því að finna það. Það tekst ekki öllum.
Það skyggir samt á tilveruna að mjög margir munu glíma við mikla fátækt þessi jól. Ekki eins og það sé nýtt að fólk glími við fátækt. Sei, sei, nei. Það hefur alltaf verið til fátækt fólk. Stjórnvöld hafa séð um það. En núna verða það fleiri fjölskyldur en mörg undanfarin ár sem munu líða af skorti. Það má einnig rekja til stjórnvalda. Kreppan er afkvæmi manna. Misvitra manna.
Ég leyfi mér að mæla með bók. Mögnuðu látlausu fræðiriti hvar á baksíðu segir:
„Við megum aldrei gleyma því að við getum fundið tilgang í lífinu, jafnvel þótt við séum í vonlausri aðstöðu gagnvart örlögum sem ekki verða umflúin.“
Bókin heitir „Leitin að tilgangi lífsins“. Höfundur hennar er Viktor E. Frankl. Þýðandi Hólmfríður K. Gunnarsdóttir. Páll Skúlason, heimspekingur og fyrrverandi háskólarektor, ritar inngangsorð að bókinni. Þar segir m.a:
„Hverri einstakri mannveru eru sköpuð sérstök skilyrði til að lifa og njóta lífsins. Þessi skilyrði eru afar ólík, en stundum geta þau verið nánast óbærilega hörð. Það er ekki síst við slíkar aðstæður sem spurningin um tilgang lífsins leitar á. […] […] Tilgangur lífsins er vissulega sá að lifa lífinu.[…]“
Takk Óli fyrir fín orð.