Aldrei hef ég höfðingjadjarfur verið. Ekki fremur en fólk af svipuðum slóðum og ég. Og því fór nokkuð um mig þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson setti athugasemd við pistil minn síðastliðinn sunnudag. Fyrir mér hefur maðurinn ávalt verið sérstakt fyrirbæri, hávær, djarfur, sjálfsöruggur og hvergi gefið eftir fyrr en á síðustu árum og þá nauðbeygður.
Fræðin og kenningarnar sem Hannes hefur staðið fyrir og kynnt þjóðinni af nokkru alefli um árabil hafa ekki fengið hljómgrunn hjá mörgum meðal-jónum en hljómað því betur í eyrum svokallaðra víkinga sem, þrátt fyrir mikla hvatningu og meðbyr, hafa siglt, ekki bara sínum skipum heldur og þjóðinni allri og nágrönnum í strand.
Ekki er ólíklegt að á næstu misserum mælist nægilega margir fátækir Íslendingar til að fræðin komist ekki hjá að telja þá með sem staðreynd. Mikið almennt sorgarferli fer í hönd og ekki sjáanlegrar huggunar að vænta frá þeim fræðigreinum sem stýrt hefur verið eftir hingað til. Leyfi ég mér að óska fræðunum vaxandi þroska
Í Siðfræði Níkómakkosar má margt lesa um „mannlega heill og farsæld“. Einnig má lesa þar um réttlæti og heilmikið um vináttu. Meðal annars þetta: „Hvernig er hægt að gæta og varðveita velgegni án vina? Því meiri sem velgengin er, því hverfulli er hún. Þegar örbirgð og aðrar hörmungar hafa dunið yfir telja menn sig ekki eiga í nein hús að venda nema til vina sinna.“ (Síðara bindi, bls.149.)
Það er kannski sú vinátta sem almenningur hlustar eftir í tali stjórnmálamannanna sem nú stýra skútunni og þegar þeir greina hana ekki, þá er eðlilegt að kallað sé eftir nýju fólki í brúna.
Hvet ég, að lokum, fólk til að lesa prýðilega grein Ólafs Ragnars Ólafssonar, stjórnmálafræðings, í Morgunblaðinu í morgun á blaðsíðu 27: „Um takmörk pólitískra hugmyndafræða.“