Ekki finnst mér líklegt að pilturinn sem dró Baugsfánann að húni á Alþingishúsinu sé með klárar hugmyndir um hvernig leysa megi vandann sem þjóðin er í. Ekki finnst mér heldur líklegt að fólkið sem kastaði eggjum sem ákafast í Alþingishúsið á laugardaginn sé með á hreinu hvernig leysa skuli vandann.
Mér virðist að þeir sem hæst hafa og mest sprikla séu síst líklegir til að skilja hvað vandinn er skelfilegur og hve erfitt er að leysa hann þegar ráðamenn og þjóðin öll er rúin trausti um víða veröld, nema í Færeyjum.
Þess vegna verður að álykta að nauðsynlegt sé að gefa mönnunum, sem nú leita lausna, sæmilegan frið til að sinna þeim verkefnum. Það er alveg klárt að þeir eru ekki of sælir af þeim störfum eins og málin eru vaxin. Ekki er líklegt að þeir séu margir sem hafi lausnir á takteinum og séu færir um að leysa málin á einhverskonar hraðbergi. En brýnast er að málin verði leyst.
Annað mál er svo auðvitað það að sjálfsagt og eðlilegt er að finna sökudólgana sem sköpuðu vandann, hvar í horni sem þeir hýrast og draga þá til fullrar ábyrgðar, rétt eins og útigangsmanninn sem hnuplaði vínarbrauðinu í verslun á Laugaveginum í fyrra og var snarlega dæmdur í fangelsi, án skilorðs.
Já ofbeldi og skrílslæti leysa engan vanda. En ég efa að spillta stjórnkerfi okkar geti það. Það er vandasamt að koma þjóðinni út úr því, þannig að jafnræðis verði gætt.
Vonandi tekst það. Kær kveðja.