Það eru auðvitað stórtíðindi að þeldökkur maður hefur verið kosinn forseti Bandaríkjanna. Vafalaust miklu meiri tíðindi en hægt er að gera sér í hugarlund hér uppi á landi lyginnar.
Djarfur og hreinskilinn hefur Obama talað og mótað sér stefnu um hagsmuni og jöfnuð fyrir alla Bandaríkjamenn. Ekki bara þá efnuðu og sterku. Og fólk gerir sér von um að maðurinn segi satt. Tali sannleika. Það verður mikil breyting ef það tekst. Stjórnmál eru ekki neinn venjulegur drullupollur.
Bandaríkjamenn hafa gjarnan drepið forseta sína ef þeir hafa sýnt tilburði til að bera hag almennings fyrir brjósti. Og lífslíkur Obama eru ekkert sérlega glæsilegar þegar við bætist að maðurinn er þeldökkur. Svartur maður í Hvíta Húsið. Verður það leyft? Og allar þessar byssur í einkaeign.
Hér heima á Fróninu les maður þrisvar fréttina um Boga Nilsson. Hann segir sig frá rannsókninni á bankaglæpunum. Vissulega las ég fréttina þrisvar. Það er ánægjulegt að það skuli finnast einn maður í kerfinu sem kýs að halda sig við réttlæti og heldur sig frá útúrsnúningum og sjálfsréttlætingu.
Vonandi er niðurstaða Boga og ákvörðun upphaf að nýjum tímum. Það er ekki seinna vænna.