Íslensku konurnar stóðu sig frábærlega í fótboltanum í kvöld. Það var spennandi að fylgjast með þeim leika. Ákveðnar, fljótar og beinskeyttar sóttu þær af krafti allan leikinn. Verðskulduðu sigurinn vissulega. En það er eitt sem fer í taugarnar á mér:
Það er þegar tveir menn lýsa leikjum. Mér er engin leið að sætta mig við þennan aukamann sem situr eins og páfagaukur á öxlinni á íþróttafréttamanninum og gjammar og talar og útskýrir hvað hefði átt að gera, svona og hinsegin, eins og hann hafi á þessu öllu vit.
Þvaðrið í honum einfaldlega flækist fyrir. Það truflar og angrar. Það á bara einn maður að lýsa hverjum leik. Fast og ákveðið og það er klárt að íþróttafréttamennirnir eru fullfærir um það og gera það mjög vel.
Til hamingju með sigurinn. Gott að gleyma kreppunni smástund. Takk fyrir.