Snúðu í austur og snúðu í vestur og bentu á þann sem að þér þykir bestur. Þessi leikur kom í hugann um hádegið þegar Ingibjörg Sólrún sagði í fréttum RÚV að stýrisvaxtahækkunin væri ekki skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Í Mogganum í morgun (bls.16) var haft eftir Davíð Oddssyni að stýrisvaxtahækkunin væri gerð að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og ég er enn að velta því fyrir mér hvað sé satt og hvað logið. Það getur varla hvorttveggja verið satt. Eða hvað? Hvert sem við snúum okkur þá er enginn bestur. Ekki einu sinni góður. Því miður.
Hvað sem allri þeirri þvælu líður þá reynast Færeyingar stærstir nágranna okkar og þeir einu sem koma til hjálpar án tafs og tuðs. Það er þægilegt að finna fyrir slíkri vináttu. Og þegar norðurlandakærleikurinn til okkar verður mældur í krónum á hvern íbúa þjóða lánenda, verður fróðlegt að sjá hvaða þjóð unni okkur heitast.
Annars er hugur og einlæg samúð hjá börnunum sem misstu andlitin í gassprengingunni í Grundargerði í fyrradag. Vonandi er tækni og hæfni læknastéttarinnar komin á það stig að geta hjálpað þeim og grætt sárin þeirra. Því til viðbótar munu þau þurfa mjög á elsku og umhyggju að halda.