Á nokkrum stöðum hefur verið nefnt að hugsanlega yrði kosið fljótlega til Alþingis. Í fyrstu lét ég þetta sem vind um eyrun þjóta. Næst hugsaði ég setningarnar yfir. Í þriðja sinn staldraði ég við og spurði sjálfan mig: Hvað myndir þú kjósa gamli gaur ef svo færi að kosið yrði í vetur eða vor?
Því er ekki auðsvarað. Svei mér þá. Ég er í miklum vafa. Ég merki hvergi þann tón í tali alþingismanna, ráðherra eða annarra, sem ég vildi heyra. Auðvitað geri ég mér ljóst að ræða þeirra flestra miðar að því að blekkja okkur einfeldningana. Þannig er tungumál stjórnmála.
En nú er ég einfaldlega kominn á þann aldur að ég læt ekki bjóða mér hvað sem er. Svo að ég á ekki auðelt með að svara sjálfum mér. En ég ætla að velta þessu fyrir mér næstu vikur. Hlusta á ráðamennina með það í huga að kosið verði í vor og reyna að greina tal þeirra.
Leyfi mér að rifja upp gamla tilvitnun: Í grein eftir Jón Sveinbjörnsson fv.prófessor, fyrir allmörgum árum, birtir hann niðurstöðu Pauls Corcoran:
„Málfar nútíma stjórnmála er ekki notað til þess að sannfæra menn heldur til þess að hafa stjórn á þeim, ekki til þess að örva hugsun heldur til þess að koma í veg fyrir hana, ekki til þess að veita upplýsingar heldur til þess að leyna þeim eða villa um fyrir mönnum, ekki til þess að vekja athygli manna heldur til þess að dreifa henni og kæfa hana.“