Slagorðið „Bókvitið í askana“ gekk lengi vel á landinu. Og þjóðin státar af háu menntunarstigi. Það er auðvitað og að sjálfsögðu eitt hið allra besta mál og stórkostlegt. En samt sýnist okkur, hinum minna menntuðu, á síðustu dögum, að eitthvað vanti á að bókvitið sé í öskunum okkar.
Í hverri blaðagreininni á fætur annarri svo og viðtölum í ljósvakamiðlum, kemur fram fólk sem hefur langskólagöngu að baki og allskyns flottar menntagráður og titla til að státa af og allir þykjast hafa á öllu vit en samt, samt sem áður situr þjóðin í dýpsta skít síðan árið 874.
Urmull hugsana og allskyns spurninga vakna í kollinum á áhorfanda. Meðal annars sú hvort ekki vanti eitthvað í menntastefnuna, grunn eða klett eða bjarg til að byggja aðra menntun á. Svo sem eins og siðfræði. Siðfræði í stjórnmálum og siðfræði í viðskiptum, svo eitthvað sé nefnt.
Bæði starfssviðin virðast vera fremur skammt komin í þeim efnum. Ekki kunna að haga sér með nægilegu tilliti til þjóðarheillar. Og þessvegna spyr maður: Getur það verið vegna þess að þeir sem móta menntunarmarkmiðin, þekkingarmarkmiðin, hafi ekki næga menntun eða þekkingu til að ákvarða rétt?
Einhver mun spyrja á móti: ,,Hvaða markmið eru rétt? Eru til rétt markmið þekkingar?“
Karlar eins og ég myndu svara því til og segja að ábatinn af þekkingunni ætti að koma öllum til góða. Ekki bara sárafáum.