Það er hægt að hafa mörg orð um ágjöfina sem gengur yfir þjóðina þessa daga. Hugsanlega myndi það létta á sálartuðrunni að skrifa og skrifa og skamma og skamma. En svo er að sjá að nógu margir annist það. Og auðvitað hafa þeir allir meira vit á málunum en ég.
Ekki kann ég því illa að rætt sé um risavaxið lán frá Rússum. Bandaríkjamenn hafa gefið skít í okkur undanfarin misseri sem og á síðustu dögum. Bara að Rússarnir setji ekki þau skilyrði að fá að stunda heræfingar á Íslandi með Landhelgisgæslunni. Gaman að heyra hvað Rice hefði um það að segja.
Það kom annars í hugann að nú væri tækifæri fyrir alþingismennina okkar að sýna ástina á þjóðarhag með því að segja upp aðstoðamönnum sínum og draga til baka eftirlaunalögin sem þeir smánuðu sig með. Það er áreiðanlega hægt að hagræða víða ef vel er að gáð og einlægur vilji finnst.
Ég er annars að ljúka við skáldsöguna Mister Pip, eftir Lloyd Jones. Fyrri hluti hennar er aldeilis með því skemmtilegasta sem ég hef lesið nýlega. Mr.Watts, sem allir kölluðu Pop Eye, er ein aðalpersóna sögunnar. Hann er eini hvíti maðurinn á eyju þar sem íbúarnir eru allir svartir. Hann verður lesendum bókarinnar ógleymanlegur.
En það syrtir verulega í álinn á blaðsíðunum eftir tvöhundruð þegar svartir skæruliðar og svartari rambóar beita valdi sínu og veita því útrás með því að höggva friðsamlega íbúa eyjunnar. Útrás er margslungið orð.