Það verður að játast að einskonar ánægjuhrollur fór um mig þegar Danir töpuðu fyrir Króötum í morgun. Orsökin liggur í því að ég sá þegar þjálfari Dananna missti vitið þegar þeir töpuðu fyrir Íslendingum. Allt fas hans þá og framkoma í leikslok fletti ofan af miklum hroka hans og yfirlæti í garð Íslendinga.
Annars hefur verið allmikið um ánægjuhroll þessa dagana. Sitjandi heima með þrjá vasaklúta og tjöruhamp og olíutvist í hausnum hefur íslenska handboltaliðið verið hin mikla huggun í einsemdinni. Veruleg huggun. Og Guðmundur litli hækkað og stækkað við hvern leik. Og hópurinn allur.
Í morgun fór ég niður í anddyri í leikhléi til að sækja blöðin og hitti þar nágranna minn, konu á leið í leikfimi. Mér varð að orði: „Við erum fimm yfir.“ Þá brosti hún þessi elskulega kona sínu elskulegasta brosi sínu og svaraði: „Ég var að horfa. Þetta er glæsilegt. Frábært. Æðislegt.“ Hún var enn að hrósa þeim þegar ég fór inn í lyftuna og upp á sjöundu.