Á þessum ágætu dögum í sveitinni hefur helst vantað regn. Þannig hefur það verið í uppveitum Borgarfjarðar megnið af júlímánuði. Hitinn allt að tuttugu og tveim gráðum og gjarnan stafalogn. Það telst til tíðinda.
Það hefur ekki rignt nóg þarna fram frá. Það sést á gróðrinum. Óvíst um bakkaplönturnar sem við stungum niður um síðustu mánaðamót. Enda sagði skógfræðingurinn, sem var að kaupa mjólk í Reykholti, að það ætti engin að gróðursetja í svona þurrki. Ég fann fyrir gremju í tóninum enda lifa og hrærast svona fræðingar með plöntunum sínum.
Vonandi hefur rignt þar í nótt. Mér sýnist það á heimasíðu Veðurstofunnar. Við hjónakornin skruppum hingað heim síðdegis í gær og förum til baka um hádegi í dag. Ég get varla sagt að ég hafi kveikt á tölvunni. Þurfti þó að kvarta við Amazon.com yfir týndum bókapakka. Svarið beið mín í morgun.
Þeir senda nýjan pakka með hraðpósti, mér að kostnaðarlausu. Ég er sáttur við það þótt seinkunin nemi tveim mánuðum og bækurnar hafi átt að veita félagsskap í fríinu. Það verður því betra þegar þær koma. Enda eru svona gamlir karlar eiginlega alltaf í fríi.
Fyrirsögnin á pistlinum er ber sama heiti og ein af frægustu smásögum W. Somerseth´s Maugham. Ég er svo heppinn að eiga stórbók eftir Maugham, 65 Short Stories. Hún er útgefin af Heinemann/ Octopus 1976. Það var á þeim árum þegar Bókabúð Snæbjarnar var í Hafnarstræti, í sama húsi og I. Brynjólfsson og Kvaran, heildverslun.
Ég kom oft við í bókabúðinni á leið heim úr vinnu. Keypti eina og eina bók. Það er samt galli á stórbókum hvað þær fara illa í rúmi. En sögurnar eru yndislegar og höfundarnir góðir vinir og mikil ánægja að taka bækur þeirra fram úr hillunum og strjúka þær. Æ, já. Þú hlýtur að þekkja þetta líka.
„There are few things better than a good Havana. When I was young and very poor and smoked a cigar only when sombody give me one, I determined that ever I had money I would smoke a cigar every day after luncheon and after dinner. This is the only resolution of my youth that I have kept. …“ Upphaf smásögunnar Virtue, eftir W. Somerset Maugham.
Nú til dags má auðvitað ekki tala fallega um tóbak. Sussu nei. Ég vona samt að það rigni í Borgarfirði. Þótt ekki væri nema fyrir seinni slátt bændanna og hríslupíslirnar okkar Ástu nytu góðs af.