Einhvern veginn er maður slakari við bókalestur á björtum dögum eins og þessum sem nú umvefja okkur. Inni í húsi líkar manni miður að vera ekki úti í sólinni og úti við verða blaðsíðurnar of bjartar og þreyta augun. Klukkan sex í morgun var sólin komin á svalirnar hérna á sjöundu. Ég var þar úti og fylgdist með blaðberanum koma með kerruna sína að húsinu.
Dagblöðin eru eins og gluggar út í líf þjóðarinnar. Heimsins. Ég nýt þess að lesa þau. Morgunblaðið sér í lagi. Stundum tvisvar. Þar undirstrikast daglega hvað furðulegar þær eru setningarnar sem hafðar eru eftir stjórnmálamönnunum, vísa út og suður, austur og vestur.
Eins er þetta með fjármálaspekingana, þeim ber sjaldnast saman tveim og engin leið fyrir venjulega verkamenn eins og mig að henda reiður á yfirlýsingunum. Því var það í morgun þegar ég hafði lesið tilvitnun í orð Gunnars í Krossinum frá í gær og gluggað í grein eftir prest Íslensku Kristskirkjunnar að ég ákvað að rétta úr sálinni og baka eplatertu.
Ásta er sérlega ánægð með eplaterturnar mínar og við ætlum að hittast í Litlatré annað kvöld þegar hún kemur úr ferð sem hún er í á Ströndum og siglir norður að Horni í dag. Og þá tek ég á móti henni með eplatertu og dreypi á hana Calvadosi, ( það er að segja eplatertuna), sný tákndæminu úr hinum fornu ritningum við, þar sem segir um rifbeinið Evu:
„En er konan sá […] tók hún af ávexti þess og át og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin[…]“
Það er við hæfi að við Ásta háttum hjá hríslunni sem reiturinn dregur nafn sitt af og var eina hríslan á lóðinni þegar við tókum við henni fyrir fimm árum.
Sama hrísla í dag:
Og ef Guð kallar og spyr: „Hvar ertu?“ þá svara ég og segi: „Berrassaður í sólbaði.“ Ormurinn verður ekki sakaður um neitt því að ég úðaði um síðustu helgi.