Það er alltof algengt að unga fólkið sem ráðið er á kassana í stórmörkuðunum þekki ekki vörurnar sem það stimplar inn. Það henti mig í dag í Hagkaupum í Smáralind. Pilturinn var svo sem eldhress og gantaðist við þann sem var á undan mér í röðinni. Sjálfsöruggur bauð hann mér svo góðan dag og tók að vigta og verðleggja.
Af reynslu minni síðustu vikur skoðaði ég kassakvittunina áður en ég fór frá kassanum. Græn epli voru stimpluð Epli gul. Venjulegur laukur var stimplaður Skarlotlaukur. Grape var stimplað sítrónur. Annað virtist í lagi enda innkaupin lítil.
Tiltölulega föðurlega benti ég piltinum á mistökin. Þá fór allt í steik. Endaði með því að hann hringdi á þjónustuborð. Fljótlega kom stúlka. Hún bað mig fylgja sér að þjónustuborðinu. Þar leiðrétti hún mistökin og greiddi mér 17.4 % af upprunalegu upphæðinni til baka.
Ég hugsaði sem svo: Hvað ef um stór innkaup hefði verið að ræða og ég ekki litið á kvittunina?
Það munar um 17.4 prósent. Leyfi mér að vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að sýna aðgát við kassana.