Ráðinn hefur verið nýr ritstjóri að Morgunblaðinu í stað Styrmis Gunnarssonar. Ég minnist þess þegar Styrmir var ráðinn, hvað við, þ.e. sá hópur sem ég umgekkst þau árin, vorum ánægð þegar kveðið var upp úr með ráðningu hans þegar Matthías Johannessen hætti. Mér hefur alltaf þótt Morgunblaðið vera eina alvöru dagblaðið á Íslandi. Og þykir enn.
Fríblaðið 24 stundir, sem er einskonar annar helmingur Moggans, hefur, undir ritstjórn Ólafs Stephensen, fundið tón sem auðvelt er að vera tiltölulega sáttur við. Þess vegna sýnist mér, óbreyttum, það lofa góðu að Ólafur taki sæti Styrmis. Það er meiri spurning hvernig 24 stundum reiðir af í framtíðinni.
Sagt er frá því að ýmiskonar breytingar séu í farvatninu hjá Morgunblaðinu. Vafalítið munu þær, í fyrsta lagi, miðast við að ná til fleiri lesenda og fleiri kaupenda. Þá er því hvíslað að með Ólafi og Þór Sigfússyni séu komnir að blaðinu fulltrúar arms áhugasamra Evrópusinna, en Styrmir hefur verið andvígur þeirri stefnu og skrifað margt þar um. Ekki munu allir sáttir við að blaðið leggist í áróður fyrir aðild að Evrópusamstarfi.
Eitt af því sem komið hefur mér á óvart mörg undanfarin ár, er hversu margir fara fjandsamlegum orðum um Morgunblaðið og virðast hata það einlæglega. Hvergi sést það betur en í blogg-heimum, en svo til hvern einasta dag birtast þar pistlar um lágkúru og lítilmennsku blaðsins. Bloggarar, sem telja sig hafa öllu meira vit á blaðamennsku og þjóðfélagsmálum en aðrir, virðast aldrei geta setið á sér að níða Moggann í leiðinni.
Ætla má að óvinum Morgunblaðsins svíði hve vel blaðið stendur sig og að það láti ekki eftir þeim að deyja, drukkna, gefa upp andann, þrátt fyrir margendurtekna spádóma þeirra þar um. Það verður áhugavert að fylgjast með breytingum á Mogganum með nýjum stjórum á nýjum tímum.
Leyfi ég mér að óska þeim velfarnaðar og gæfu til að vera miðill allrar þjóðarinnar og hagsmuna sem nýtast henni allri. Og Staksteinar fái framhaldslíf.