Í liðinni viku lét ég smyrja „Gamla rauð“. Gamli rauður er nýtt nafn á gamla bílinn minn. Subaro Forester ’99, ekinn 160.000. Einn eigandi. Ég finn fyrir vaxandi væntumþykju til hans í hvert sinn sem ég sest undir stýrið. Tengi það við kvíðann fyrir því að hafa ekki efni á að reka hann.
Allt hvítt
Á góðum morgni vakna ég einni mínútu áður en útvarpið kveikir. Það er klukkan 6:40. Þannig var þetta í morgun. Og beinagrindin verkjalaus. Sótti blöðin niður í anddyri og settist yfir þau með kaffið sem Ásta bjó til. Fékk ekkert út úr blöðunum. Kannski tvær greinar. Önnur eftir gamla biskupinn.