Eftir kaffið við Horngluggann, lestur blaða dagsins og skimun um BloggGáttina eftir einhverju sem skiptir máli, náði ég mér í klút og þurrkaði af nokkrum uppáhaldsbókum mínum. Þar varð á vegi mínum sú ágæta játningafrásaga, Í RÓTI HUGANS, eftir Kay Redfield Jamison. Hún hefur undirtitilinn: Saga af æði og örvæntingu.
Með tómleikakennd í huga eftir lestur pistla nokkurra sjálfhverfra bloggara sem dag eftir dag hafa allt á hornum sér og gera illt verra í flestum málum, greip ég niður í bókina: Saga af æði og örvæntingu. Einn kafli hennar heitir Læknislyfið ást.
Kay Redfield Jamison er jákvæð kona sem hefur unnið mikla sigra í glímunni við geðbrigði sín. Og með játningum sínum hjálpar hún fólki við að leggja sig fram um að rækta garðinn sinn í stað þess að traðka hann niður. Það ilmar af henni.
Á einum stað í bókinni segir svo:
„En bestur allra flóðgarða er að mínu áliti ástin. Hún er aflið sem lokar úti óttann og hryllinginn en hleypir um leið inn lífi, fegurð og krafti. Þegar hugmyndin um að skrifa þessa bók fæddist, hugsaði ég mér að hún yrði um geðbrigði og kvillana sem þeim fylgja, innan ramma tiltekins lífs. En á meðan ég var að skrifa bókina varð hún líka að bók um ástina sem styður okkur og styrkir, endurnýjar og verndar. Í hvert sinn sem eitthvað dó í huga mínum og hjarta, kom ástin og endurvakti vonina og lífið. Hún hefur gert sorgina sem fylgir lífinu þolanlega og sýnt mér fegurð þess.“ (Í RÓTI HUGANS. Bls.153 )
Fyrir atgöngu þinnar las ég þessa bók. Bara titillinn einn og sér er sælgæti. Mjög innspírandi. Glæsileg kona. Takk fyrir mig.