Hún kom við hjá okkur um helgina, fjölskyldan frá Sámsstöðum í Hvítársíðu. Ólafur bóndi sagðist hafa séð tvær álftir fljúga fram til heiða, fyrri hluta dags, föstudaginn langa. Það er vorboði, sagði hann, enda dagurinn einn af þeim fegurstu um langt skeið. Heiðskír himinn, sól og logn og stilla allan daginn. Við ræddum vorið m.a. og vonina sem vorinu fylgir um „betri tíð og blóm í haga“ eins og skáldið kvað.
Í morgun varð mér á að fletta í gömlu albúmi og rakst þá á myndir teknar um vor í Bugðutanga, þegar við bjuggum þar, og viðjan við gluggann minn skartaði fræullinni sinni rétt við nefið á mér þar sem ég sat við bækur. Sérkennilegur ylur fór um mig og ljúf endurminning sem kveikti tilfinningu fyrir nýja vorinu sem er á leiðinni.
Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.
Vorið kemur til okkar allra. Þín líka. Fögnum því.
Eða er ég alltof fljótur á mér? Er það ekki í öllu falli lagt af stað?