Það er páskadagsmorgun. Dagur gleði í hjörtum kristins fólks. Kristið fólk er það fólk sem trúir á Jesúm Krist og játar trúna. Ritað er að vegir séu tveir. Breiður vegur og mjór vegur. Um mjóa veginn sem liggur til lífsins er sagt að þeir séu fáir sem finna hann. Ekki er við veginn að sakast í þeim efnum.
Þegar María frá Magdölum kom að gröf Krists fyrsta dag vikunnar, svo snemma að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni, hleypur hún til baka og segir við lærisveinana Pétur og Jóhannes: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Lærisveinarnir fóru þá út og hlupu báðir saman til grafarinnar. Jóhannes hljóp hraðar og kom fyrr að gröfinni. Þegar hann laut inn sá hann að gröfin var tóm. Þegar Pétur kom að sá hann einnig að gröfin var tóm. Inni í henni lágu línblæjur og sveitadúkur. Síðan fóru þeir aftur heim til sín.
En María frá Magdölum stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla þar. Þeir segja: „Kona, hví grætur þú?“ Hún svaraði: „Þeir hafa tekið burt Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“
Margt fólk leitar að Kristi við mismunandi aðstæður sem upp koma í lífi þess. Oftar þegar erfiðleika ber að. Það er eðlilegt því að í ritningunum er Kristur kynntur sem hjálpari, huggari og græðari. En samt eru þeir fáir sem finna hann. Það er umhugsunarefni og vekur spurningar.
Koma Maríu að gröfinni einkennist af gráti. Nístandi sorg. Söknuði. Harmi. Og einmitt þar kom Jesús til hennar, birti sig henni og ávarpaði hana: „María.“
Og hin fornu orð spámannsins rættust: „Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.“
– Og rætast enn.
Gleðilega páska.