Hún verkaði á mig eins og veisla, Lesbók Morgunblaðsins, síðastliðinn laugardag. Af sextán síðum hennar voru átta með kjörefni fyrir mig. Þeim til viðbótar frábær myndaopna Rax og loks baksíðan með greininni Myndin af heiminum.
Það sem ég kalla kjörefni mitt eru greinar um Þorberg bls. 3, opna um Steinar Sigurjónsson, bls. 4 og 5, Augun mín og augun þín, mynd Rax bls. 8 og 9, Orðablæti um Órapláguna, bls. 10, tvær greinar á bls. 11 og loks Myndin af heiminum á baksíðu. Þá er ljóðið, Við fyrstu sýn laglegt: „Hann var í kerrunum / og hún á kassanum / …“
Það er samt greinin um Zürau-spakmæli Kafka, eftir Ásgeir H Ingólfsson, sem mest skilur eftir. Þar segir frá bók eftir Kafka með 109 spakmælum eftir þennan merka höfund. Eitt þeirra hljóðar svona: „Þegar þú ert kominn nógu langt þá er engin leið að snúa til baka. Þangað verður þú að komast.“ Maður stansar við. Veltir fyrir sér hugsuninni. Hvað snéru margir við áður en þeir komust nógu langt?
Síðar segir: „Honum er tíðrætt um Paradís, sem hann virðist sannfærður um að við höfum í raun aldrei verið rekin úr, brottreksturinn hafi aðeins verið blekking…“ og síðar „Þetta óbrjótanlega er inni í okkur öllum en það er okkur flestum hulið, við hyljum það með guðstrú og blekkingum – en sökum þess að það er ekki hægt að eyðileggja þennan kjarna – sem öllu skiptir – þá hefir ekkert sem máli skiptir eyðilagst við Paradísarmissinn, Paradís er inni í okkur öllum, við rötum bara fæst þangað. Paradísarheimt snýst þannig um að sjá í gegnum allar blekkingarnar.““
Það væri hægt að skrifa langa hugleiðingu um efnið „inni í okkur öllum“ eða með öðru kunnu orðalagi „hið innra með yður“. Látum það bíða að sinni.