Fáein minningarorð.
Látin er í Reykjavík föðursystir mín Guðleif Ólafsdóttir. Hún var fædd 1926. Útför hennar verður gerð í dag frá Fossvogskirkju, klukkan 15:00.
Guðleif var yngst sjö systkina, barna afa míns, Ólafs Þorleifssonar og ömmu, Hreiðarsínu Hreiðarsdóttur. Er nú aðeins Ásta, ein systkinanna sjö, eftirlifandi.
Því miður voru fjölskyldutengsl okkar alltof skammvinn. Það helgaðist af skilnaði foreldra minna árið 1953. Á þeim árum voru hjónaskilnaðir ekki eins algengir og auðveldir og nú tíðkast. Var konum oft gert erfitt fyrir þegar þær vildu losa sig úr óbærilegri lífskreppu. Kostuðu slíkar ákvarðanir gjarnan reiði og ásökun í hópi aðstandenda beggja aðila og skildu eftir sár sem seint eða aldrei gréru.
Myndin er úr albúmi föður míns.
Guðleif, eða Gulla frænka, var alltaf í huga mínum glæsileg og elskuleg kona. Í kringum hana unga leiftraði lífsgleði og heimsborgarabragur. Á árunum sem hún var gift Katli Jenssyni, óperusöngvara, var eins og Ítalía væri komin inn á hæðina á Grettisgötu 61. Þá gall við hlátur og gleði og samtöl krydduð með ítölskum orðum og setningum. Talað var um heimsfræga einsöngvara eins og þeir ættu heima í næsta húsi og óperur og söngafrek þeirra rædd yfir kaffi og kleinum. Og við börnin horfðum á fullorðna fólkið og hlustuðum á það með takmarkalausri aðdáun.
Myndin er tekin 17. júní 1960 við Stjórnarráðið. Hún er úr albúmi pabba.
Þegar fjölskyldan á Grettisgötu 61 kom í heimsókn til foreldra minna að Bjargi, sungu þeir gjarnan einn eða tvo takta úr Hamraborgum og Veginn í vagninum ek ég, Ketill og pabbi. Þá fannst mér enginn í heiminum stæði þeim á sporði í söng og glæsileika. Og Gulla hló og trúði á lífið eins og ungt fólk gerir og fannst eins og hamingjan væri bjargföst og óhagganleg. Ég minnist þess hvað hún var góð við mig, lagði hendi mína í lófa sinn og strauk blíðlega yfir og sagði: „Þú hefur píanó fingur.“ Svo tók hún grip á gítar og mér fannst hún svo flott. Þannig er hún í minningu minni. Gulla frænka.
Fékk þessa mynd að láni
En það urðu vinslit eins og fyrr getur og það er sorglegt þegar þannig fer. Fjölskyldutengsl rofna, tilfinningar vináttu, frændsemi og reiði blandast í hug fólks og til verður vík sem erfitt er að brúa. En þrátt fyrir víkina býr í hjartanu hlý endurminning um elsku og söknuður.
Kveð ég frænku mína með þessum fátæklegu minningarorðum og votta eftirlifandi eiginmanni hennar, börnum og öðrum ástvinum, einlæga samúð og hluttekningu við fráfall hennar.
Guð blessi minningu Guðleifar Ólafsdóttur.