Það var í Kiljunni, þætti Egils Helgasonar, 13. febrúar. Þeir töluðu um bókmenntir, Egill og Eiríkur Guðmundsson. Ræddu um William Faulkner. Bókmenntafræðingurinn sagði Faulkner vera einn af fimm mestu skáldsagnarithöfundum tuttugustu aldarinnar. Ekkert minna en það.
Ég hef oft lent í erfiðleikum með svona staðhæfingar. Vantað að vita af hverju þessir sárafáu allramestu eru allramestir. Ég sótti þáttinn á netið og spilaði samtal þeirra Egils þrisvar eða fjórum sinnum. Mér fannst ég komast örlítið nær því í þessum þætti, af hverju fræðimanninum finnst þetta um höfundinn. Hann sagði meðal annars um hann:
„..hann var alltaf að reyna það ómögulega…
..sögur hans eru skrítnar í laginu og það þyrmir yfir mann…
..maður veit ekkert hvar maður er staddur…
..veit ekkert hvað er að gerast…
..það er hluti af því hvað þær eru heillandi…“
Og um kvikmyndina The Big Sleep, með Humprey Bogart og Lauren Bacall, sagði fræðingurinn: „Það skildi engin The Big Sleep.“ Egill var á sama máli.
Ég reikna með að James Joyce og Franz Kafka séu með Faulkner í fimm höfunda klúbbi Eiríks. Ólíklegt að Halldór Laxness fái þar inni og Hemingway tæpast, því að „…hann gerði allt vel sem hann gerði, en reyndi aldrei hið ómögulega,“ sagði Eiríkur. Það er þá líka lærdómsríkt að skoða ummæli Joyce’s um bók sína Odysseif: „Þessi bók var samt sem áður glæfraspil. Milli hennar og sturlunar er aðeins glær himna.“
Það þróast með manni skoðun á skoðunum bókmenntafræðinga. Og miðað við þær bækur sem ég hef mesta ánægju af og kem að aftur og aftur þá ber ég ekki mikið skyn á bestu skáldsagnahöfundana. Þær bækur sem mér falla best eru einfaldar og klárar og drekkja ekki hugsun og söguþræði í málskrúði og orðhengilshætti. Óreiðan í sjálfum mér dáir knappan stíl. Hún þarfnast þess að ég viti hvar ég er staddur og hvað er að gerast. Í einfeldni minni.