Torgið er nærri miðju bæjarins. Fjöldi fólks leggur leið sína þangað daglega. Á tréstólpa sem er á miðju Torginu er festur allstór kassi. Hann er úr glæru plasti. Á einni hlið hans er rifa þar sem hægt er að stinga miða í. Margir sem fara um Torgið stinga miða í kassann. Á miðann hafa þeir skrifað það sem er þeim efst í hug þann daginn.
Kassinn er þannig hannaður að hann les af miðunum og birtir efni þeirra á skjá skammt frá. Við skjáinn má sjá fólk standa og lesa miðana sem það eða aðrir hafa skrifað. Stundum verða háværar umræður um aðalefni miðanna og fyrir kemur að það liggur við handalögmálum. Þegar kunnir einstaklingar eru teknir fyrir og hafðir að skotspæni á miðunum fjölgar miðum ótæpilega.
Einn veturinn tók steininn úr. Þá höfðu framtaksamir menn komið upp spjaldi með mynd af fórnarlambi miðahöfunda. Var fólk hvatt til þess að sína hug sinn í verki með því að sparka í myndina þegar það gekk hjá. Virtust ákaflega margir vera tilbúnir til þess. Á sama tíma urðu miðaskrifin svæsnari og svívirðilegri. Mátti nú sjá fólk koma á Torgið hvaðanæva að, stinga einum eða fleiri miðum í glæra kassann, ganga síðan að myndinni og sparka í hana.
Það sem gerði spörkurunum erfitt fyrir var að skór þeirra áttu það til að skemmast þegar sparkað hafði verið í myndina dag eftir dag. Var þá fundið upp á því í snarkasti að framleiða hvíta skó með sterkri táhettu. Hvíta til að tákna réttlæti eigandans og táhettu svo fastar mætti sparka. Næstu vikur mátti sjá fólk af öllum stéttum koma úr öllum áttum á Torgið og safnast í biðröð við myndina og sparka í hana. Og flestir í hvítum skóm.
Svona hélt þetta áfram lengi eftir að myndin á spjaldinu var óþekkjanleg. Fólk setti miða í kassann, miða með nýju efni og gekk að spjaldinu og sparkaði í það. Og þegar allt kom til alls virtist kjarni málsins vera falinn í ánægjunni af að sparka í náungann. Fljótlega var, annarsstaðar í bænum, hafist handa við að útbúa nýtt Torg.
Eitt andsvar við „Hvítu skórnir“