Seinni árin var hann kallaður Eyjólfur sundkappi. Áður kölluðum við hann Eyva á þrjátíu og sex. Þrjátíu og sex var vestasta húsið á Fálkagötunni að norðan verðu. Pabbi Eyva var kallaður Jón stálblýjantur okkar á milli. Það kom til af því að þegar honum mislíkaði við okkur strákana þá þóttist hann skrifa okkur upp. Eins og löggan gerði. Nema Jón notaði fimm tommu saum ef annað var ekki við höndina.
Samfélagið á Grímsstaðaholtinu, sem við ævinlega kölluðum Holtið og íbúana holtara, er eftirminnilegt og ýmsar góðar tilfinningar tengdar lífinu þar. Holtið var eins og sveitaþorp. Það var umlukið túnum og kálgörðum. Göturnar báru fuglanöfn. Fálkagata var einskonar „mainstreet“, þá Þrastargata og Lóugata, Smyrilsvegur, Arnargata og Súlugata.
Einnig höfðu sum húsin nöfn, s.s. Litla-Brekka, Bjarg, Hólabrekka, Kvöldroðinn, Hagi, Engihlíð, Litli-Bær, Eyvík, Björnshús, Jónshús, Bjarnastaðir og auðvitað Grímsstaðir. Hruni var á allstóru landi vestan við Smyrilsveg, Signýjarstaðir enn vestar og Grund og Einarsstaðir.
Aftan og norðan við húsin við vesturhluta Fálkagötu var göngustígur og þar átti fólk ýmiskonar skúra fyrir verkfæri. Sumir héldu kindur, samanber „Villi big“. Einn hélt kýr og í Haga, Fálkagötu 9, ráku menn svínabú.
Veruleg trilluútgerð var stunduð frá Grímsstaðavör, vafalaust allt að fimmtán bátar þegar best gekk. Réru þeir á rauðmaga og grásleppu og óku aflanum á markað í handvögnum. Lífið í Grímsstaðavör var hluti af tilveru okkar krakkanna. Svo var stofnað Pöntunarfélag sem hóf starfsemina við Fálkagötu 25 eða 27, byggði síðar nýtt hús við hornið á Fálkagötu 18. Mjólkurbúð var á þrettán og svo auðvitað Dóri fiskur. Hann kom með fisk á hestvagni og Eyvi með honum.
Seinna keypti Dóri fiskur Austin vörubíl og blés í lúður þegar hann var mættur á svæðið með fisk og þá þustu húsfreyjur til að kaupa fisk og Dóri stakk vír í gegnum hausinn á ýsunni og snéri í lykkju fyrir handfang. En það voru einmitt þeir tveir, Dóri fiskur og Eyvi á þrjátíu og sex sem stofnuðu Knattspyrnufélagið Þrótt 1949.
Eins og ég man Eyjólf, þá var hann einstakt ljúfmenni og náði vel til unglinganna. Reyndu þeir félagarnir að halda uppi félagsstarfi í bragganum, s.s. taflkvöldi, skemmtikvöldi og jiu- jitsó. Eyvi var stundum með upptökutæki og tók viðtöl. Þau voru tekin upp á stálþráð, eins og tæknin hét í þá daga, og svo fengu krakkarnir að heyra í sjálfum sér.
Eyjólfur var einstakur. Og þótt kynni okkar hafi aldrei verið mikil þá var hann eitt af kennileitunum á uppvaxtarárunum Holtinu. Síðar, í Samhjálparstarfinu, kynntist ég honum sem óvenjulegum lögreglumanni, hjálpfúsum og elskulegum mannvini sem vildi öllum vanbúnum einstaklingum vel og hvatti þá með hlýju og hughreystingarorðum.
Mig langaði að nefna þetta. Slíkir eru fremur sjaldgæfir.