Ásta hringdi heim klukkustund áður en hún losnaði úr vinnunni á föstudaginn og sagði: „Ég vil fara í sveitina.“ Í fyrstu þagði ég nokkra stund. Hún hafði nefnilega sagt um áramót að við skyldum taka það rólega heima í janúar. „Langar þig ekki í sveitina?“ spurði hún svo þegar ég svaraði engu. „Jú auðvitað. Mig langar alltaf í sveitina. Ég elda þá kjötsúpu með hraði og við borðum áður en við förum.“
Við áttum svo sérlega ljúfa helgi í Litlatré. Þar var stafalogn en nokkurt frost eða átta gráður, hrím yfir móunum og stjörnubjart á nóttunum. Tilveran var helguð bókum. Ásta lauk við Óreiðuna. „Ég tími ekki að ljúka henni,“ sagði hún, „þetta er svo yndisleg bók.“ Hún var sæl með bókina eins og hún var sæl með Karítas. Það gilti um okkur bæði.
Ég lenti aftur á móti í þyngra efni. Það hófst með Þorsteini Gylfasyni, Sál og mál, um áramótin. Svo leiðir hver bókin mann inn í aðra og tekur hug manns heljartökum og knýr mann áfram. Knýr, sogar og togar lesandann. Þetta byrjaði hér og nú sárvantar mig Fædros á íslensku. Skrítið að hann skuli ekki vera til þýddur. Eða er hann það kannski?
Sökkti mér því í Játningar Ágústínusar. Það er í þriðja sinn. Mögnuð bók sem kallar á heilagan Tómas frá Akvínas og hann mun væntanlega benda áfram til fleiri heilagra manna. Hvað um það. Við ókum Krókinn eftir hádegi í gær og komum við í Kalmanstungu. Spjölluðum við hressa bændur um veður og sauðfé og pólitískan prest sem þar hafði litið við.
En Viskan, þessi andi sem í himnunum býr, knýr, sogar og togar og leitast við að gera mönnum vængi sem hjálpa þeim til að lyfta sér upp til hærri hugsunar, þangað sem „Góðið“ sjálft býr.
Það var annars Ezra Pound sem sagði:
„AMO ERGO SUM.“ „Ég elska, þessvegna er ég.“ (Söngvarnir frá Pisa, 80. söngur).