Mig minnir að það hafi verið daginn fyrir Þorláksmessu að í dyrasímann í anddyrinu kom bláókunnugur maður og spurði eftir mér. Eftir pínulítið hik og stam opnaði ég fyrir honum. Þegar hann svo birtist á sjöundu hæðinni stóð ég og beið eftir að hann segði á sér deili. Hann sagðist vera kominn til að færa mér bókargjöf.
Bauð ég manninum inn og við ræddum litla stund. Undrun mín einkenndi samtalið en hann bar sig nokkuð vel. Þetta reyndist svo vera bloggvinur frá Akureyri á leiðinni norður. Bókin sem hann gaf mér heitir „Rúmhelgir dagar“ og er eftir Karl Sigurbjörnsson biskup. Þó það sé ekki fallegt að stela og undirstrikað í boðorðunum tíu, þá leyfi ég mér að birta hérna tvær línur úr bókinni:
„Prestur spurði börnin í sunnudagaskólanum: „Hver varð ekki glaður þegar týndi sonurinn kom heim?“ Og eitt barnanna svaraði: „Alikálfurinn.““
Góður.