Vökunótt

Það bjarmar seint af degi þessa morgna. Vindurinn gnauðar. Regnið lemur. Skýin leggjast á húsþök. Þessi nótt er þó senn á enda. Hún var vökunótt.

Ég deildi nóttinni með bókum. Ljóðabókum. Höfundar þeirra hafa sumir lotið svo lágt að gerast vinir mínir. Þótt ég hitti þá aldrei. Einungis orð þeirra. Þau önduðu inn í mig. Úr bókunum. Vinátta er undursamlegt fyrirbæri.

Margir gáfuðustu hugsuðir mannheima hafa ritað um vináttu. Hún á sér margvíslegar rætur. Víst er um það. Ljóð næturinnar voru ættuð frá Fagraskógi og Hvítadal. Töfrandi nöfn.

„Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,
og blaðið, það er krypplað, og ljósið er að deyja.“

„Hefði ég tveggja manna mátt
mundi ég leggjast út á vorin.“

Á unglingsárunum sungum við í nemendakórnum á Hvanneyri:

„Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn […]“

og ljóðið og lagið og félagsskapurinn og vinsemdin fylltu tilveruna af „draumablárri júlínótt“. Þótt um miðjan vetur væri.

Jæja. Nú sló klukkan sjö. Ég ætla að fara inn í rúm og halla mér. Vakna svo með konunni sem kyndir hjarta mitt.

3 svör við “Vökunótt”

  1. Það var alls ekki ætlun mín að valda þér heilabrotum eða hugarangri, og ásetningurinn aðeins góður.
    Kærar þakkir fyrir að taka svo vel á móti „bláókunnugum manninum“. Óvíst að hver sem er hefði gert það.
    Ferðalagið gekk eins og í góðri sögu, eða þar um bil.

    Bestu óskir um ánægjulega hátíð.

  2. Takk fyrir síðast, Sigurður.
    Ég er enn að átta mig á óvæntri heimsókn þinni.
    Sé að þú ert kominn norður yfir heiðar heilu og höldnu.
    Gott að vita það.
    Óska þér gleðilegrar hátíðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.