Við sátum saman fjögur. Ræddum ýmis mál. Dægurmál, dægurþras, og guðfræði, bókmenntir og trúmál en þessi eru sameiginleg áhugamál okkar. Í umræðu um þau fara samtölin á flug. Þá er gaman. Einnig ræddum við dálítið um mat. Þetta var í gærkvöldi hérna heima hjá okkur Ástu.
Gestir okkar voru Kristinn og Harpa. Kristinn gaf okkur nýútkomna bók, Um holdgun orðsins, eftir Aþanasíus frá Alexandríu. Kristinn þýddi bókina sem hluta af lokaritgerð sinni í klassískum fræðum við hugvísindadeild Háskóla Íslands 1996. Hún kemur út sem eitt af lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags. Einar Sigurbjörnsson skrifar inngang. Bókina tileinkar Kristinn foreldrum sínum.
Kristinn færði okkur einnig fjórða hefti Glímunnar, en Glíman er óháð tímarit um guðfræði og samfélag. Útgefandi er Grettisakademían. Í ritstjórn eru Gunnbjörg Óladóttir, Kristinn Ólason, Sigurjón Árni Eyjólfsson og Stefán Karlsson. Efni þessa árgangs er, Hvað er trú?
Í ritstjórnarpistli eftir Stefán Karlsson segir: „Mér er ánægja að fá að kynna fjórða árgang Glímunnar, sem er efnismikil að vanda. Nú er óhætt að fullyrða að þetta tímarit um guðfræði og samfélag hafi fest sig í sessi. Efnið skiptist í fjóra þætti: Málþing, aðsendar greinar, þýðingu, deiglu og ritdóma. Glíman stóð fyrir málþingi í Reykjavíkurakademíunni 14. október 2006 þar sem fjallað var um spurninguna „hvað er trú?“ Þau erindi sem þar voru flutt birtast hér sem greinar. […]“
Glíman þetta árið er 304 blaðsíður. Eru höfundar efnis ekki færri en 17. Á meðal þeirra eru, svo einhverjir séu nefndir: Karl Sigurbjörnsson, Gunnar Kristjánsson og Sigurður Örn Steingrímsson. Þá er viðtal Gunnbjargar Óladóttur við séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur, Sól í sjötíu ár. Loks eru 6 ritdómar. Brynjólfur Ólason sá um prófarkalestur og umbrot.
Það er afar ánægjulegt að eignast rit eins og þessi og geta sökkt sér í hugleiðingar um þá blessuðu gjöf; „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann,[…]“ sem Guð gaf mönnum á jólum.
Og við fögnum um þessar mundir, „allir þeir sem tóku við honum.“