Maður nokkur komst þannig að orði fyrir fáeinum dögum að þunglyndi hans væri svo yfirþyrmandi að ekkert biði hans nema það að fara beina leið til helvítis. Þá velti ég því fyrir mér hvaða hugmyndir maðurinn hefði um þetta helvíti sem hann mundi lenda í.
Ég hef haft þá skoðun og þann skilning um langt árabil að helvíti sé hugarástand fremur en staður og að það búi um sig í hugarfylgsnum manna, af ýmsum orsökum, og kremji þá og brenni.
Þá hef ég einnig haft þá skoðun um langt árabil að einnig Guðs ríki sé hugarástand, fremur en staður og að það búi um sig í hugarfylgsnum manna, af ýmsum orsökum, og gleðji þá og blessi.
Fyrir mér hef ég orð Jesú Krists sem segir: „Ekki munu menn segja; Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður.“ Ef menn velta fyrir sér þessum orðum þá má spyrja hvort þau bjóði ekki upp á þann möguleika að fólk geti haft áhrif á hvort ríkið ráði meirihluta í hugarfylgsnum þess. Ríki ljóss eða ríki myrkurs.
Ef þunglyndi og andlegum þjáningum er líkt við myrkur þá liggur nokkuð beint við að líkja andstæðu þess við birtu og ljós. Og af því að við erum að nálgast jólin, minningarhátíð um fæðingu frelsara, þá er einmitt hægt að gleðjast yfir því að eiga valkosti í þessum andlegu efnum. Kjósa ljós í stað myrkurs og komast inn á þokkalega grænar grundir.
Mér svona datt í hug að nefna þetta.
Jólin eru að koma.
Ég hlakka til þeirra.