Um töluna sjö. Ég hef verið að rifja upp eitt og annað um töluna sjö. Út frá ritningunum. Hún er merkileg tala og kemur víða við. Hún fer eins og rauður þráður i gegnum alla ritninguna. Frá upphafi til enda. Drottinn skapaði veröldina á sjö dögum. Hann hvíldist á sjöunda degi.
Sjöunda hvert ár skyldi vera hvíldarár. Sjöunda hvert hvíldarár skyldi vera sérstakt hátíðarár. Sjöundi hver mánuður skyldi vera sérstaklega heilagur. Sjö vikur eru á milli páska og hvítasunnu. Páskahátíðin skyldi standa í sjö daga. Laufskálahátíðin skyldi einnig standa yfir í sjö daga.
Jeríkóborg féll þegar sjö prestar með sjö lúðra höfðu gengið umhverfis borgina í sjö daga og blásið sjö sinnum í lúðrana á sjöunda deginum. Og Naaman dýfði sér sjö sinnum í Jórdan til þess að læknast. Þá eru sjö dagar í hverri viku. Sjö nótur í tónlist og sjö litir í regnboganum. Í Opinberunarbókinni segir frá sjö blessunum.
Í Exódus 25 segir frá fyrirmælum sem Móses fékk um að gera sjö arma ljósastiku af gulli. Á henni voru sjö ljós. Hlutverk þeirra var að lýsa musterið upp svo og að vera til skrauts. En fyrst og fremst þjónaði ljósastikan sem trúarlegt tákn. Hún var tákn um anda Guðs á meðal fólksins.
Og Sakaría spámaður vitnar og segir: „Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni, og sagði við mig: „Hvað sér þú?” Ég svaraði: „Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana. Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin.”
Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: „Hvað merkir þetta, herra minn?” Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: „Veistu ekki hvað þetta merkir?” Ég svaraði: „Nei, herra minn!”Þá tók hann til máls og sagði við mig: „Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: „Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn!- segir Drottinn allsherjar.””
Í framhaldi af þessum orðum dustaði ég rykið af menórunni minni, sjö arma ljósastikunni, um helgina og setti sjö kerti í kertastæðin. Í henni felast táknin um sjö eiginleika Heilags anda sem og andlega ljósið, viskuna, sem lýsir mönnunum. Ég kveikti á einu kerti í gær, kveiki á öðru í dag.
Þá tek ég daglega frá tíma, þessa dagana, fyrir samveru með bókum spekinga og hugsuða, innvígðra manna og trúarhetja, og næri mig á visku þeirra. Reyni að lyfta anda mínum, þó ekki væri nema hænufet, upp fyrir ys og þys meðalmennskunnar sem á svo auðvelt með að halda fólki niðri.