Hann skellur á í nóvemberbyrjun. Nær fullum þunga undir mánaðamót desember. Geisar með kröftum fram að jólum. Hann hvín og steypist, þyrlar upp og hvolfist yfir. Tætir. Reynir að hremma mann og þeyta með. Slíta af manni spjarirnar og fella mann um koll og þrýsta á mann. Af afli. Af miklu afli. Lotu eftir lotu. Fella mann.
Um er að ræða markaðsöflin. Þau ráðast á mann með slíku offorsi að maður á fullt í fangi með að verjast. Auglýsingar hafa aldrei verið stærri eða fleiri í blöðum og öðrum miðlum. Heilsíður. Opnur. Í fjórlit. Maður verður að halda sér fast til að missa ekki tökin. Tökin á festunni. Skynseminni. Buddunni.
Málið er að bíða af sér storminn. Íhuga hvað mann vantar. Þegar Sókrates gekk um markaði Aþenu var hann spurður hvaða erindi hann ætti þar, hugsuðurinn. Hann svaraði: „Er að skoða hvað það er margt sem mig vantar ekki.“
Svo þegar storminn lægir og það lygnir, þá reynir maður að greina hvaða hlutir hafa meira gildi en aðrir. Hugsar til Qohelet og fer með kærar setningar úr fornöld í huganum. Setningar um kynslóðirnar, sólina, vindinn, árnar sem renna í sjóinn og strit mannanna. „Aumasti hégómi. Allt er hégómi.“ Viskuorð frá löngu liðnum tímum. Orð sem alltaf eru ný og í fullu gildi en vilja týnast í rykmekki lakari göngumanna.
Loks velur maður sér eina bók, kannski tvær, þó ekki í einu, setur þær í handarkrikann og lallar heim til sín og sest við Horngluggann og lætur bókina hvíla á hnjám sér til að byrja með og nýtur nærveru hennar. Treinir sér lesturinn.
Ásta fjárfesti í Óreiðu á striga í fyrradag. Framhald sögunnar af Karitas. Hún gaf mér bókina og tryggði sjálfri sér þar með aðgang að henni. Fyrri bókin er yndisleg. Hlakka til að lesa þessa. Hún hefst þannig: Þétt gufan reyndi að brjótast útúr eldhúsinu, þrengja sér að rúðunum eins og barmmikil kona að mjóslegnum manni, […]“
Þetta er annars einn af þessum morgnum sem mér finnst Guð fylla húsið með blessun sinni og ég rifja upp gömul orð: Fyrst kom stormur, – svo kom landskjálfti, – eftir landskjálftann kom eldur. „En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.“ Í nýju þýðingunni: „Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ.“