Þar kom að því. Sektaður fyrir hraðakstur. Mynd tekin við Fiskilæk. Sýnir 99 km. hraða. Og ökumann. Og ég sem hef ekki farið yfir hundrað í tíu ár og talið mig með prúðustu ökumönnum hinna síðari tíma. Enda fara alltaf allir framúr mér.
Þetta var á laugardaginn, 27. október. Við vorum á heimleið úr Borgarfirði, glöð í sinni. Um miðjan dag. Færðin var eins og best verður á kosið, autt, þurrt og bjart. Umferð lítil. Lítill jeppi með eldri borgara við stýrið safnaði í lest fyrir aftan sig. Ók á áttatíu. Lestin allt upp í tuttugu bílar. Menn byrjuðu að taka framúr honum á móts við Ölver. Það var ekki nema von. Svona hægfara karlar á nýjum, litlum jeppum vekja óþægindi í bensínfæti annarra í umferðinni.
Lestin fyrir aftan jeppann hafði styst hægt og örugglega. Þegar vegurinn tók að beygja við Fiskilæk var komið að okkur að taka framúr. Það var góð yfirsýn í beygjunni. Tíu bílar enn fyrir aftan okkur. Til að komast framúr draugnum varð að auka ferðina. Þetta var mjúk framúr taka. Enginn bíll á móti eins og augað eygði. Ásta sagði: „Sér maður þegar myndavélin smellir af?“ „Myndavélin?“
Hvað skyldu margir hafa verið myndaðir þarna við að fara framúr jeppanum? Góðar tekjur fyrir ríkið!
Gíróseðillinn kom í gær. Brot: Of hraður akstur. 96 km. klst. Sektarfjárhæð kr. 10.000. Sé greitt fyrir 13, nóvember 2007, kr. 7.500. Það er andvirði einnar Biblíu. Ég er miður mín. Eftirleiðis mun ég ekki taka framúr við myndavélarnar tvær á þessari leið. Önnur er sunnan við vegamótin inn í Hvalfjörð. Njóta svo frelsisins því betur á milli.
Mér varð hugsað til hjartalæknisins míns. Hann ekur alltaf á nýjum öflugum bílum og stillir krúsið á 98 kílómetra hraða.
Glannar.
Þakka þér.
Jú, vikmörkin voru lækkuð í fyrra, ef ég man rétt. Úr 10 í fimm kílómetra. Svo nú telst það lögbrot ef þú ekur á 96 km/klst þar sem hámarkshraði er 90 km. Að auki eru þó vikmörkin við mælingar (sjálfvirkar eftirlitsmyndavélar og radarbúnaður bíla) fjórir kílómetrar, svo í raun geristu ekki brotlegur fyrr en við 99 km/klst.
En þetta er hárrétt athugað með þennan almenna aksturshraða, á bilinu 95 til 98 (eða 100) km. Var sjálfur einstaklega löghlýðinn og fór aldrei yfir 90 fyrst eftir að ég fékk bílpróf. En þegar út á þjóðveginn var komið og halarófur mynduðust hækkaði þessi meðalhraði einmitt upp í 100 km. eða svo, aðeins til að fylgja umferðinni og vera ekki öllum til ama og óþæginda.
Þessi athugasemd er líklega orðin æði slitrótt og mun lengri en ég ætlaði. Svona fer þetta þegar vinnan truflar í sífellu. 😉
Ég þakka fyrir auðsýnda samúð. Votta þér um leið mína, einlæga.
Það sem mér þykir ósanngjarnt í þessu er, að í áratug eða meira hefur þjóðin þróað með sér aksturshraða 95 til 98 km. á klst. með einskonar þöglu samþykki eftirlitsins sem hefur látið óátalið. Það eru vikmörk upp á 7-8 %.
Með myndavélunum eru vikmörkin aðeins 3.5%. Ekki minnist ég þess að hafa lesið um þessa breytingu. En hvað um það. Ekki verður deilt við dómarann.
Ég samhryggist þér innilega, lenti í sömu myndavél aðeins þremur dögum fyrr. Mín sekt reyndist þó þrefalt hærri, enda um verulega gróft brot að ræða – 102 km/klst.
Það verður að segjast eins og er, að þessi myndavél er einstaklega vel staðsett. Þarna eru aðstæður kjörnar til að leyfa bensínfætinum að síga ögn, hvort sem um framúrakstur eða annað er að ræða. 🙂
Er þess þó nokkuð viss að enginn mannamunur sé gerður í þessum efnum og sektir felldar niður. Ekki miðað við það sem ég hef séð og heyrt.
Ég reikna með að ráðherrar og alþingismenn sem aka of hratt á leið sinni vestur í Stykkishólm telji sjálfsögð mannréttindi sín, að fá sektir niðurfelldar. Svona upp í ýmsa fyrirgreiðslu, þó ekki sé annað.
Ég lenti í þessu um daginn á sama stað og var sektaður fyrir að aka á 97km. klst.