Það var tvennt sem gerði liðna helgi ánægjulegri umfram margar aðrar. Í fyrsta lagi gróðursetning í skaplegu veðri á föstudagsmorgninum, veðri sem breyttist í úrhellisrigningu, nánast skýfall, sem entist út daginn og nóttina í sunnan og suðaustan stormi. Laugardagurinn, sem heilsaði snemma með einstakri blíðu, blíðu sem varði allan þann dag og sunnudaginn, óvænt. Þetta var í Litlatré.
Þegar þögnin fær mál
Höfðum gert okkur vonir um að það stytti upp. Ekki er útlit fyrir að sú von rætist. Sóttum því regngallana niður í kompu og settum í farangurinn. Við áætlum að fara í sveitina eftir vinnu í dag til að gróðursetja 40 birkihríslur sem við pöntuðum í vor hjá Árna á Þorgautsstöðum. Höfum ágæta reynslu af haustgróðursetningum, eins og nefnt var hér, nema veðurþættinum.